Helga Sif
96 supporters
Hlýðir barnavernd skipunum frá sýslumann ...

Hlýðir barnavernd skipunum frá sýslumanni?

Jun 07, 2023

Barnavernd Reykjavíkur hefur nú óskað eftir lögregluleit að barninu mínu. Ástæður sem gefnar eru upp í bókun barnaverndar virðast vera einhver hrærigrautur af óljósum áhyggjum af barninu, vegna nafnlausra tilkynninga sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum, og aðfararmáls hjá sýslumanni.

Málið mitt hefur verið unnið hjá öðrum barnaverndum hingað til, og aldrei hefur foreldrahæfni mín komið til álita þar, þrátt fyrir að faðir og hans fylgdarsveinar hafi reynt að tilkynna mig áður. Málið var flutt til Reykjavíkur vegna orðróms um dvöl mína þar, en barnaverndin neitar nú að flytja málið til Akureyrar, þrátt fyrir að lögheimili mitt sé þar og hvorugt foreldri barnsins búi í Reykjavík.

Í aðfararmálum er almennt ekki vaninn að leitað sé að börnum eins og þau séu týnd eða í hættu. Vaninn er að foreldri þurfi sjálft að hafa uppi á staðsetningu barnsins, en geti svo óskað eftir liðsinni sýslumanns við aðför þegar barnið hefur verið staðsett. En að sjálfsögðu er allt annað verklag í mínu máli. Mín tilfinning er sú, að því alvarlegra sem ofbeldið er, því erfiðara er að trúa því að það hafi átt sér stað, og því meiri harka gagnvart þolendunum. Einhvern veginn tókst föður og lögmanni hans að búa til þennan óþarfa æsing í nýrri barnavernd.

Getið þið ímyndað ykkur hversu þreytandi það er að þurfa stöðugt að berjast fyrir því að farið sé eftir reglum og lögum, þegar gæta á hagsmuna barnsins síns? Þetta álag er ekki nokkru foreldri bjóðandi.

Faðir, sem var í upphafi alfarið á móti því að barnið fengi lyf við sínum einkennum, og sinnti aldrei veikindum barnsins, lætur nú eins og barnið sé í lífshættu vegna þess að ég gerði hlé á lyfjainntöku barnsins við húðsjúkdómi. Faðir sem hefur réttarstöðu sakbornings vegna gruns um ofbeldi gegn barninu og mér, kemst upp með að halda því fram við barnavernd að ég muni skaða barnið frekar en að afhenda það honum. Á sama tíma og hann þykist óttast um líf barnsins síns, er hann upptekinn í meiðyrðamáli gegn frænku minni sem hefur aldrei nafngreint hann, sem verður flutt fyrir dómi á morgun.

Barnavernd gerði algjöra lágmarks skoðun á ásökununum áður en kallað var eftir leit að barninu. Ég ræddi við starfsmenn í einu myndsímtali og þær fengu að heilsa barninu, og ég bauð þeim fleiri myndsímtöl og upplýsingar sem staðfesta að það er í lagi með barnið. Ég bað barnavernd um að hringja í konu sem ég hef verið í samskiptum við. Símtalið, sem var kurteisislegt, var mjög stutt því það endaði með að starfsmaðurinn skellti á konuna án þess að kveðja, og hringdi ekki aftur.

Það eina sem ég er ekki tilbúin að gefa upp, er staðsetning okkar og læknisins hans. Sem virðist vera það eina sem barnavernd hefur áhuga á. Væntanlega svo sýslumannsfulltrúinn geti framkvæmt aðra aðför á heilbrigðisstofnun, eins og hún virðist hafa sérstaka unun af.

Óneitanlega lítur allt út fyrir að umrædd leit snúist helst um hagsmuni föður og lögmanns hans, sem virðist vera farin að kenna sig einum of mikið með umbjóðanda sínum. Barnaverndarstarfsmenn hafa ekki svarað erindum mínum eftir að þau báðu um þessa leit og hafa látið lögfræðing barnaverndar nánast alfarið um samskiptin. Þau hafa ekki þegið boð mitt um fleiri myndsímtöl, en láta lögreglu samt leita að honum, en slík leit gæti allt eins endað með að auglýst verði eftir drengnum í fjölmiðlum. Væri barnið talið í hættu hjá mér, væri það ekki stórkostleg vanræksla starfsmanna barnaverndar að svara ekki móður sem hefur barnið í sinni umsjá?

Er þetta eðlileg stjórnsýsla?

Aðspurð getur barnavernd ekki svarað því neitandi að gerð verði aðför að drengnum þegar hann finnst.

Sýslumannsfulltrúinn sem sér um aðförina er sú sama og gerði aðför að börnum Hjördísar Svan, sem nú eru fullorðin og standa enn við sína frásögn af ofbeldi. Sú sama og reyndi að gera aðför að börnum Eddu Bjarkar, sem standa enn við sína afstöðu gagnvart föður. Sú sama og sá um aðförina á Barnaspítalanum, og lagði til að bíða eftir að barnið myndi örmagnast og yrði borið út með valdi og vildi að ég yrði handtekin. Sú sama og gargaði á mig að það væri mér að kenna hvað barnið væri tryllt af hræðslu á spítalanum. Kona sem hefur enga menntun sem tengist börnum eða áföllum, og starfar alla jafna við fjárnám og eignaupptöku. Engar aðrar aðfarir hafa verið gerðar í yfir áratug, en þessar ofangreindu aðfarir gegn þolendum ofbeldis.

Er kannski enginn annar starfsmaður hjá sýslumanni sem langar til að framkvæma þennan viðbjóð?

Takk fyrir að styðja við okkur ❤️❤️

Enjoy this post?

Buy Helga Sif a dinner

More from Helga Sif