Barnavernd Reykjavíkur hefur fengið upplýsingar um flugferðir fólks frá Landamæraeftirlitinu. Það samræmist ekki starfslýsingu barnaverndarstarfsmanna að njósna um flugferðir hverra þeirra sem þeim dettur í hug að njósna um. Þau hafa beðið um upplýsingar um flugferðir frænda míns, mínar ferðir og sonar míns, en einnig hef ég rökstuddan grun um að barnavernd hafi njósnað um flugferðir fyrri vistunaraðila sonar míns. Finna má í gögnum, að Landamæraeftirlitið gaf barnavernd upplýsingar um flugferð ótilgreinds kvenkyns einstaklings, sem fór í flug þann 26. janúar sl. Ég og lögmenn mínir höfum gert kröfu um að barnavernd afhendi upplýsingar um hvaða aðila þau létu fletta upp, sem átti bókað flug þennan dag. Ég og lögmenn mínir sendum alls 30 tölvupósta á barnavernd með kröfu um afhendingu gagna. Það vill svo til að fyrrum vistunaraðili sonar míns fór einmitt í flugferð þann 26. janúar. Ég átti ekki bókað flug þann dag. Ég neitaði að funda með barnavernd fyrr en þau afhentu afritið af tölvupóstinum. Barnavernd afhenti ekki tölvupóstinn, heldur fór í staðinn fram á að sonur minn yrði vistaður á vistheimili barna í 2 mánuði, af því ég var sögð ósamvinnuþýð. Fjórum dögum fyrir fund Umdæmisráðs um vistun drengsins, sendi barnavernd skjal á mig og Umdæmisráð, sem virðist vera falsað. Í skjalinu virðist vera búið að skeyta saman gögnum, annars vegar tölvupósti til Landamæraeftirlitsins þar sem barnavernd biður um flugupplýsingar um mig, og hins vegar tölvupóstinum þar sem Landamæraeftirlitið svarar barnavernd og vísar í kvenkyns einstakling sem átti bókað flug 26. janúar. Meint skjalafals hefur verið kært til lögreglu.